Ekki líta undan.

Skoraðu á fólkið í kringum þig að skoða hvernig það talar um fólk í viðkvæmri stöðu

Við erum öll manneskjur

Á Íslandi býr hluti fólks við sárafátækt. Þetta er sá samfélagshópur sem er hvað viðkvæmastur og upplifir oft mikla fordóma og skömm. Mörg þeirra leita til Kaffistofu Samhjálpar yfir lengri eða skemmri tíma.

Við trúum því að enginn eigi að vera svangur og á Kaffistofunni fær fólk heita máltíð og er mætt af virðingu og kærleika. Auk þess er Kaffistofan skjól fyrir jaðarsetta hópa í samfélaginu þar sem fólki er mætt af virðingu og kærleika og boðið upp á heita máltíð alla daga ársins.

Hér að neðan eru myndbönd af fólki sem hefur nýtt sér þjónustu Samhjálpar og forstöðukonu Kaffistofunnar. Hlustaðu á sögurnar frá þessu magnaða fólki og fræddu þig um starfsemi Samhjálpar í leiðinni.

Þórir

Á sínum erfiðustu tímum var Þórir Kjartansson heimilislaus og hafðist við í bílakjallara Ráðhúss Reykjavíkur. Hann leitaði til Kaffistofu Samhjálpar á þessum tíma og segir hana einfaldlega vera lífsbjörg fyrir fólk í mikilli þjáningu. Í dag er hann húsvörður í þessu sama Ráðhúsi.

Magdalena

Á Kaffistofu Samhjálpar mætti Magdalena Sigurðardóttir skilyrðislausri góðvild og umhyggju á sama tíma og hún var langt leidd í áralangri baráttu við virkan fíknisjúkdóm. Í dag er lífið gott en tilfinningin við að fá heita máltíð, skjól og kærleiksríkt viðmót á Kaffistofunni er nokkuð sem hún gleymir aldrei.

Rósý

Potturinn og pannan í starfsemi Kaffistofunnar er forstöðukonan Rósý Sigþórsdóttir. Dagarnir snúast um að bjóða þeim sem þangað koma upp á morgunverð og heita máltíð alla daga ársins og halda utan um samfélagið sem myndast á staðnum. Áherslan er á að mæta hverjum og einum af virðingu á þeim stað sem viðkomandi er staddur á hverju sinni.

Styrkja Samhjálp

Stuðningur almennings gerir Samhjálp kleift að halda dyrunum á Kaffistofunni opnum allan ársins hring. Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum.
Styrkja